top of page

Nánar um mig.

Bakgrunnur - uppeldisstaður - skólaganga.
Ég er uppalin í Vestmannaeyjum og mér gaus upp á land. Ég bjó á Heimagötu 33, sem var í austurbænum aðeins nokkur hundruð metra frá gossprungunni. Húsið okkar eyðilagðist og foreldrar mínir fluttu ekki tilbaka. Ég bjó í Reykjavík eftir gos gekki í Austurbæjarskóla og Laugalækjarskóla. Ég útskrifast sem semi-dux stúdent frá viðskiptasviði Ármúlaskóla. Ég vann skrifstofustörf eftir prófið en dreif mig svo til Danmerkur og fór í Grundtvigs Höjskole, það var mjög lærdómsríkt. Eftir skólann sótti ég um vinnu inn í Köben og fékk starf sem aðstoðar leikskólakennari (pædagog medhjælper). Kaupmannahöfn er dásamleg. Ég var enn á óviss um hvað ég vildi læra, fór heim og í HÍ og tók nokkra mismunandi kúrsa. En til að gera langa sögu stutta, þá endaði ég í Parsons School of Design in Paris, og útskrifaðist þaðan eftir 4 ára háskólanám með BFA í grafískri hönnun árið 1987.

Starfsferill í grafískri hönnun.

Ég vann lengst af á auglýsingastofunni Yddu, þar vann ég mjög fjölbreytt verkefni fyrir Íslandsbanka fyrsta, bæklinga, auglýsingar, myndskreytingar, dagatal, tékkhefti, ársskýrslur ofl. ofl.  Eftir nokkur ár þar flutti ég mig yfir á AUK (auglýsingastofa Kristínar) var þar í tvö ár en eftir að ég eignaðist eldri drenginn minn 1994 fór ég að vinna sjálfstætt sem ég hef gert síðan! (úff tíminn líður svoooo hratt)

 Á þessum tæpu tuttugu árum hef ég unnið mörg og mjög fjölbreytt verkefni fyrir bæði lítil og stór fyrirtæki og mikið fyrir "hið opinbera" og auðvitað fyrir einstaklinga. Ég hef líka komið að hönnun húsa og garða. Já ég hef alltaf verið alls óhrædd að takast á við ný verkefni, að hanna er fyrir mér ávallt sama nálgunin þe. hönnun er samsetning forma og lita, sem hentar hverju sinni svo að hönnun skili sínum besta árangri. Hér á síðunni undir Grafísk hönnun er hægt að sjá lítið brot af öllu því sem ég hef gert! 

Af hverju lærði ég að verða leiðsögumaður?

Það hefur sína kosti að starfa einn en það er einmanalegt, svo til að leysa þann vanda dreif ég mig í Leiðsögumannaskólann í MK og útskrifaðist þaðan sem fullgildur enskumælandi leiðsögumaður og starfaði við það í smá tíma. Ég hafði mikið gaman af því starfi en því miður að þá varð það víkjandi þar sem ég hafði bæði mikið að gera í hönnuninni, sem og er það því miður staðreynd að starf leiðsögumanns er mikið láglaunastarf, og maður verður oft að velja það sem hentar betur afborgunum af húsinu!

Vöruhönnun - af hverju lærði ég það líka?

Ég hef gaman að takast á við nýjar áskoranir, að læra og bæta mig. Ég var búin að hugsa í einhvern tíma um að það væri áhugavert að læra vöruhönnun, að hanna úr tvívíðu formi yfir í þrívítt, og eftir vangaveltur ákvað ég að fara í Iðnskólann í Hafnarfirði, þar tók ég Listnámsbraut og lærði að auki að smíða í tré, málm og plast. Sá skóli er með ákaflega vel útbúin verkstæði og góða verkkennara og var ég í þrjú ár í skólanum að nema. Það var alveg frábært að hafa svona mikinn hönnunargrunn og fá svo að leika lausum hala á verkstæðum! Að vinna í mismunandi efni heillar mig, að hafa kunnáttu til að blanda þeim saman og ég smíða sjálf allar mínar prótótýpur. Eftir námið fór ég í gang með að framleiða og smíða sjálf vörur undir nafninu cooldesign.is. Ég setti upp vefverslun sem og seldi ég í verslunum og er enn að selja smá í Kraum, Aurum og Rammagerðinni. En það er mikið basl og vinna að standa einn í svona útgerð, svo eftir þessa ævintýralegu og lærdómsríku reynslu fann ég að þetta var ekki það sem ég leitaði að í bili.



Við hvað vinn ég í dag?

Með alla þessa miklu reynslu og kunnáttu, vinn ég við það að deila reynslu minni og selja kunnáttu mína. 

Ég býð upp á þá nýbreyttni að ég kem til þín - í þitt fyrirtæki. Í dag er auglýsingamarkaðurinn mun flóknari en hann varð áður, þegar nóg var að setja auglýsingu í Moggann til að senda skilaboð til allra landsmanna! En það góða er að það þarf ekki að vera eins dýrt og heilsíðuauglýsingin var :)

Það er hægt að gera margt alveg frítt, en allt krefst þetta tíma og kunnáttu og það væri að æra óstöðugan að læra þetta allt. Ég sé um það :) Hafðu samband: sigruneina@internet.is



 





 

 

 

bottom of page